Sigurður Einarsson fær ekki matsmenn til að leggja mat á hvort hann hafi auðgast á því að persónuleg ábyrgð hans vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi var felld niður. Ekki heldur til að meta hvert tap Kaupþings var á þeim gjörningi.

Sigurður höfðaði mál fyrir hérðasdómi þar sem hann vildi fá dómskvadda matsmenn til að meta þessi atriði. Héraðsdómur hafnaði kröfu Sigurðar sem vísaði málinu til Hæstaréttar. Á föstudaginn féll dómur  í málinu. Í dómnum segir:

„Framangreind matsbeiðni sóknaraðila [Sigurðar Einarssonar] lýtur að því að dómkvaddir verði sérfróðir menn til að leggja mat á hvort hann hafi auðgast og hvort varnaraðili [Kaupþing] hafi beðið tjón af tiltekinni ráðstöfun eins og gerð er nánar grein fyrir að framan. Ekki verður séð, hvorki af matsbeiðninni né málatilbúnaði sóknaraðila að öðru leyti, að með þessu sé verið að leita eftir mati á öðrum sérfræðilegum álitaefnum en lögfræðilegum.“

Dómari metur atriði sem krefjast lagaþekkingar

Í dómnum segir  að samkvæmt lögum sé það „hlutverk dómara, en ekki sérfróðra matsmanna, að leggja mat á þau atriði sem krefjast lagaþekkingar. Þegar af þeirri ástæðu ber að hafna kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna.“

Sigurður Einarsson var dæmdur til að greiða Kaupþingi kærumálskostnað að upphæði 250 þúsund krónur.