Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað að þeir Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson skuli sæta gæsluvarðhaldi en sem kunnugt er voru þeir báðir handteknir í gær.

Magnús skal samkvæmt þessu sitja í 7 daga gæsluvarðhaldi en Hreiðar Már í 12 daga.

Það var að beiðni sérstaks saksóknara sem þeir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Þeir voru báðir leiddir fyrir dómara nú fyrir stundu. Eftir gæsluvarðhaldsúrskurðinn voru þeir báðir leiddir úr dómsal í fylgd lögreglumanna.

Karl Axelsson, lögmaður Magnúsar, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að úrskurðurinn yrði kærður til Hæstaréttar.  Ekki liggur fyrir hvort úrskurður um gæsluvarðhald yfir Hreiðari verði einnig kærður.