Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir í pistli á bloggvef sínum í dag telja að heildarkostnaður vegna endurútreiknings á gengislánum í samræmi við dóm Hæstaréttar í dag muni fara vel yfir 100 milljarða króna.

Sigmundur segir niðurstöðu Hæstaréttar áfellisdóm yfir ríkisstjórninni, sem hafi gefið út fyrirskipun um að það skyldi gert sem nú hafi verið dæmt ólöglegt. Hann kallar eftir þjóðarsátt um að leysa úr skuldavandanum. Það verði hvorki auðvelt né sársaukalaust. Ástandið nú sé hins vegar verra, að hans mati.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu nú síðdegis að Frjálsa fjárfestingarbankanum hafi ekki verið heimilt að krefjast hærri vaxtagreiðslna aftur í tímann miðað við vaxtaviðmið Seðlabankans af lánum sem bundin voru við gengi erlendra mynta.

Sigmundur skrifar á bloggvef sínum:

„Það er ekki óvarlegt áætla að heildarkostnaðurinn fari a.m.k. vel yfir 100 milljarða. Það jákvæða er að fjárhagsstaða heimila sem eru með gengistryggð lán mun batna þar sem þau munu væntanlega fá endurgreiðslur á ofgreiddum vöxtum. Hins vegar eykur þetta enn á misvægi milli þeirra annars vegar og svo hinna sem glíma við verðtryggð lán og hafa litla leiðréttingu fengið.“

Blogg Sigmundar Davíðs