Dómur í máli Styrmis Þórs Bragasonar fellur í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Málið snýr að meintum þætti Styrmis í Exeter málinu svokallaða, en málið snýst um 1.100 milljóna króna lán sem Byr veitti Exeter Holding á seinni hluta ársins 2008. Lánið var notað til þess að kaupa stofnfjárbréf í Byr af MP banka og tveimur stjórnarmönnum Byrs.

Exeter-málið var fyrsta málið sem sérstakur saksóknari ákærði í. Upphaflega voru þrír ákærðir í málinu, Auk Ragnars Z. Guðjónssonar, fyrrverandi sparisjóðsstjóra Byrs, og Jóns Þorsteins Jónssonar, fyrrverandi stjórnarformanns sparisjóðsins, var Styrmir ákærður, en hann var haustið 2008 forstjóri MP banka. Styrmir var ákærður fyrir hlutdeild í brotum Ragnars og Jóns.

Þeir voru allir þrír sýknaðir í héraði, en Hæstiréttur komst að andstæðri niðurstöðu í málum Ragnars og Jóns. Máli Styrmis var hins vegar vísað aftur í hérað vegna þess að sýknudómurinn yfir honum byggðist á sýknudómi yfir hinum tveimur. Því máli lýkur því í héraði í dag.