Jónas Friðrik Jónsson, stjórnarformaður LÍN, segir í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins að dómurinn sem féll stúdentum í vil í gær hafi alvarlegar afleiðingar fyrir Lánasjóðinn.

„Í raun og veru mun hann væntanlega þýða það að það eru þrjú hundruð og fimmtíu milljónir sem menn þurfa að brúa, það er þá væntanlega aukið framlag sem þarf að koma frá ríkinu, það þarf að ganga á eigið fé Lánasjóðsins.“

Hann segir að krafa um að nemendur skili 22 einingum í stað 18 hafi verið sett fram til að vega upp á móti þriggja prósenta hækkun námslána.

„Með þessum dómi er þessu jafnvægi kippt úr sambandi. Þessi dómur virðist líka gera afskaplega miklar kröfur til stjórnsýslunnar, hvernig er hægt að bregðast við fyrirsjáanlegum halla.“

Jónas segir að dómurinn geri stofnunum erfitt fyrir að bregðast við neikvæðri fjárhagsstöðu eins og þeirri sem LÍN var í þegar ákvörðunin var tekin.

„Það voru fyrirliggjandi tillögur sem gerði ráð fyrir fjögur hundruð milljóna útgjaldaauka og svo var niðurskurðarkrafa upp á hundrað og þrjátíu milljónir í viðbót.“