Fagfjárfestingasjóður sem stýrt er af Stefni, eignastýringafélagi Arion banka, hefur keypt 52,5% hlut í tryggingafélaginu Sjóvá af Seðlabankanum. Kaupin eru gerð með fyrirvara um fjármögnun sjóðsins. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins verður leitað til fjársterkra viðskiptavina Stefnis, eins og lífeyrissjóða, um aðkomu að kaupunum.

Starfsmönnum Sjóvá var tilkynnt um þetta á fundi í dag en sem kunnugt er var Sjóvá að mestum hluta til í eigu Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ) eða um 73%.

Mikið hefur verið fjallað um söluna á Sjóvá en sem kunnugt er hafði Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir, leitt hóp fjárfesta fyrir áramót og gert tilboð í félagið. Þar á meðal var Stefnir.  Ekkert varð þó af sölunni eftir að Már Guðmundsson, seðlabankastjóri og stjórnarformaður ESÍ, stöðvaði söluna eins og Viðskiptablaðið greindi ítarlega frá í lok nóvember sl.