Horn fjárfestingarfélag hefur í hyggju að selja hluta af 13,7% hlut sínum í Marel. Áform þess efnis hafa þegar verið kynnt fyrir lífeyrissjóðum og fleiri fjárfestum. Í viðræðum milli forsvarsmanna Horns og mögulegra kaupenda hefur verið rætt um að selja 3,6% hlut, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Horn er annar stærsti hluthafinn í Marel á eftir Eyri Invest, sem á rúmlega 31% hlut. Horn er jafnframt stærsti einstaki hluthafi Eyris Invest með 27,3% hlut. Eignarhlutur feðganna Þórðar Magnússonar og Árna Odds Þórðarsonar í Eyri er samtals 37,6%, en þeir stýra félaginu. Árni Oddur er forstjóri og Þórður stjórnarformaður.

Hermann Már Þórisson, framkvæmdastjóri Horns, vildi ekkert tjá sig um mögulega sölu Horns á hlut í Marel. Hann mætti ekki tjá sig um málið þar sem hann hefði stöðu innherja. Þau svör fengust ennfremur frá Kristjáni Kristjánssyni, upplýsingafulltrúa Landsbankans, að Steinþór Pálsson, bankastjóri og stjórnarformaður Horns, gæti ekki tjáð sig um málið frekar en Hermann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.