Hagnaður BP lækkar um 3,6%

Hagnaður breska olíufyrirtækisins BP lækkaði um 3,6% á þriðja ársfjórðungi, tap vegna lokana fyrirtækisins á olíuleiðslum í Alaska og skattahækana í Bretlandi átti þar þátt í, segir í frétt Dow Jones. Hagnaður fyrirtækisins nemur 428,5 milljörðum króna, samanborðið við 444 milljarða á sama tímabili í fyrra.
Tekjur fyrirtækisins á fjórðungnum hækkuðu um 4%, úr 4.674 milljörðum króna í 4,864 milljarða.

Hagnaður Norsk Hydro eykst um 14,8%

Hagnaður norska olíufyrirtækisins Norsk Hydro jókst um 14,8% á þriðja ársfjórðungi, en verðþróun á olíu og gasi á þar þátt í, sem og hærra álverð. Hagnaður fyrirtækisins nam 49,4 milljörðum króna á tímabilinu, samanborið við 43,1 milljarð á sama tímabili í fyrra. Greiningaraðilar höfðu spáð 52 milljarða krónu hagnaði.

Hagnaður Volvo eykst um 24%

Rekstrarhagnaður Volvo hækkaði um 24% á þriðja ársfjórðungi, úr 37,5 milljörðum króna í 46,6 milljarða. Fyrirtækið þakkar mikilli eftirspurn hagnaðinn, en spáir því að spurn eftir vörubifreiðum í Bandaríkjunum muni lækka um 40% á fyrri helmingi næsta árs.

Hagnaður Merck lækkar um 20,5%

Hagnaður þýska lyfja- og efnafyrirtækisins Merck KGaA lækkaði um 20,5% á þriðja ársfjórðungi. Hagnaður fyrirtækisins nam 12,4 milljörðum króna á tímabilinu, samanborið við 15,7 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Framleiðslustöðvun litarefna og lokun á verksmiðju í Bretlandi valda afkomurýrnuninni.

Hagnaður Lockheed Martin eykst um 47%

Hagnaður hergagnaframleiðandans Lockheed Martin jókst um 47% á þriðja ársfjórðungi, en hagnaður fyrirtækisins nam 43 milljörðum króna á tímabilinu, samanborið við 29,2 milljarða krónu hagnað á sama tímabili í fyrra. Sala fyrirtækisins nam 657 milljörðum króna á tímabilinu, sem er 4% aukning frá árinu áður.

Hagnaður Handelsbanken undir væntingum

Hagnaður Svenska Handelsbanken dróst saman um 27% á þriðja ársfjórðungi, en eigin viðskipti bankans eiga þar þátt í. Hagnaður bankans nam 19,7 milljörðum króna á tímabilinu, samanborið við 27 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Greiningaraðilar höfðu spáð því að hagnaður bankans næmi 24 milljörðum króna á tímabilinu.