*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 28. maí 2013 09:12

Draga upp dökka mynd af óbreyttum veiðigjöldum

Samtök atvinnulífsins segja að ný ríkisstjórn verði að endurskoða lög um veiðigjöld áður en nýtt fiskveiðiár gengur í garð.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Samtök atvinnulífsins (SA) draga upp dökka mynd af því hvað kunni að gerast fái veiðigjöld að standa óbreytt. Þau muni m.a. kippa rekstrargrundvelli undan fjölmörgum fyrirtækjum um land allt, hætta er á að störfum fækki, samþjöppun í greininni aukist og áhrif á einstök byggðarlög verða mikil. Af þeim sökum mælir SA með því að ný ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks endurskoði lög um veiðigjöld áður en nýtt fiskveiðiár gengur í garð.

Á vef SA segir um málið að samtökin taki undir með ríkisstjórninni um mikilvægi þess að skapa sátt um framtíðarskipulag greinarinnar og leggur til að unnið verði með tillögu svokallaðrar sáttanefndar um samningsbundna nýtingu framseljanlegra aflaheimilda til langs tíma með rétti til endurnýjunar. Þannig verði unnt að tryggja festu, stöðugleika og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi útvegsins. Það, að sögn SA, skapar svo grundvöll að fjárfestingum, nýsköpun og markaðssókn sem sárlega hefur skort að undanförnu.