Það er drambsfull nálgun innlendra sóttvarnayfirvalda að gera ráð fyrir því að öðrum þjóðum skjöplist en að þau sjálf meti áhættuna rétt. Viðbúið sé að núverandi fyrirmæli um sóttkví barna komi til með að hafa gríðarleg áhrif. Þetta segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í pistli sem birtist á vef samtakanna .

Sem kunnugt er hefur örlað á því að börn hafi ratað í sóttkví eftir að hafa komist í námunda við veiruna. Eðli málsins samkvæmt fylgir því að daglegt líf foreldra raskast með tilheyrandi áhrifum á atvinnu þeirra og vinnuveitanda. Viðbúið er að slíkt muni færast í aukana þegar skólar hefjast verði aðgerðum ekki breytt.

„Innan fárra vikna er fyrirséð að skólahald í leik-, grunn- og framhaldsskólum lamist með reglulegu millibili. Fjöldi launafólks missi vikur úr vinnu. Starfsemi fyrirtækja og stofnana verður skert í einhverjum tilvikum. Lítil fyrirtæki munu loka. Einyrkjar sitja uppi fullbólusettir en tekjulausir og einkennalausir í séríslenskri sóttkví barna,“ segir Halldór Benjamín.

Bendir hann á að í nágrannalöndum okkar sé staðan öðruvísi enda nágrannaþjóðir ákveðið að lifa með veirunni „ekki bara í orði heldur á borði“. Sóttkví barna sé ekki beitt með sama hætti og starfsemi leikskóla, frístundaheimila og grunnskóla sé tiltölulega hefðbundin. Fullbólusett og einkennalaust fólk sé síðan heldur ekki skikkað í sóttkví.

„Viðkvæði sóttvarnaryfirvalda á Íslandi er að vísindamenn og læknar sem fara fyrir sóttvörnum á öðrum Norðurlöndum og í Bretlandi séu ekki að meta áhættuna rétt. En þau geri það hins vegar sjálf. Það er drambsfull nálgun að telja að allir aðrir misskilji stöðuna hrapalega og vaði í villu og svíma. Meira að segja fordæmi frá Noregi og Danmörku eru algjörlega afskrifuð,“ segir Halldór Benjamín.

Áhættu- og hagsmunamat annarra þjóða hafi skilað allt öðrum niðurstöðum en reyndin er hér heima. Samfélagsleg sátt sé að skapast ytra um að fleira skipti máli en aðeins sóttvarnir, meðal annars andleg heilsa, menningarlíf, félagslegar þarfir og sköpun efnahagslegra verðmæta.

„Það misræmi sem nú er uppi þurfa sóttvarnaryfirvöld að skýra að fullu með öðrum rökum en að halda því fram að allir aðrir hafi rangt fyrir sér,“ segir Halldór Benjamín.