Vöruskiptahalli jókst um 7,8% í Bandaríkjunum í apríl að nafnvirði og stóð í 60,9 milljörðum dollara. Í Hálf fimm fréttum Kaupþings segir að ástæðan hafi nánast eingöngu hærri kostnaður við innflutning á matvælum og olíu. Að raunvirði dró úr vöruskiptahalla og getur eftirspurn erlendis frá því lagt grunninn að jákvæðum áhrifum á hagvöxt á öðrum ársfjórðungi. Veikur Bandaríkjadalur leiðir til aukins útflutnings sem aftur getur haft jákvæð áhrif á fjárfestingu. Bandarískir neytendur standa nú frammi fyrir hærra olíu- og matvælaverði en lægra húsnæðisverði.

Áhersla á verðbólgu Fréttir um aukningu atvinnuleysis frá því fyrir helgi ollu sterkum viðbrögðum en nú dregur þó úr fækkun starfa og talsverð fjölgun hefur orðið á fólki á launaskrá frá janúar síðastliðnum. Minnstur hluti af auknu atvinnuleysi nú kemur frá fækkun starfa en mestur hluti stafar af aukinni atvinnuþátttöku. Ben Bernanke, seðlabankastjóri hefur staðhæft að hætta á alvarlegri niðursveiflu hafi hjaðnað og að næsta verkefni sé að tryggja að hækkandi hrávöruverð skili sér ekki inn í almennt verð til neytenda. Þessi áhersla á verðbólgu er talin til marks um að vextir verði ekki lækkaðir í náinni framtíð þrátt fyrir að hagkerfið sé enn veikburða, húsnæðismarkaður í lægð og neytendur almennt frekar svartsýnir. Tölur um smásölu og verðbólgu í BNA birtast á fimmtudag og föstudag.