Danski bankinn FIH tapaði 203 milljónum danskra króna, jafnvirði fjögurra milljarða króna, á fyrri hluta árs. Til samanburðar tapaði bankinn 439 milljónum danskra króna á fyrstu sex mánuðum síðasta árs. Fram kemur í uppgjöri bankans að tapið skýrist einkum af eignum sem danski stöðugleikasjóðurinn hefur tekið yfir. Sjóðurinn (d. Finansiel Stabilitet ) var settur á laggirnar í kringum hrunið til að taka yfir eignir banka og fjármálafyrirtækja í vanda. Fram kemur í uppgjöri bankans að þetta sé ekki viðunandi niðurstaða.

Kaupþing átti FIH á árum áður. Seðlabankinn lánaði Kaupþingi rúma 80 milljarða króna með veði í bankanum í miðju bankahruni. Þegar Kaupþing féll gekk Seðlabankinn að veðum. Seðlabankinn seldi FIH haustið 2010 og fékk fyrir hlutinn 40 milljarða króna. Greint var frá því að heildarsöluverðið væri 103 milljarðar króna og yrðu af þeirri upphæð greiddar 64 milljarðar síðar. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint ítarlega frá átti að draga frá upphæðinni tap FIH fram til loka árs 2014. Auk þess er greiðsla lánsins tengd mögulegum hagnaði FIH af Axcel III sjóðnum og gengi skartgripafyrirtækisins Pandora ásamt afkomu þeirra fjárfesta sem keyptu bankann fram til loka árs 2015.