Nokkuð dró úr vanskilum í spænskum fjármálakerfi í desember síðastliðnum. Það stóð í 11,38% í nóvember en var komið niður í 10,4% mánuði síðar. Mestu munar um að hluti lélegra lána sem litlar líkur eru á að fáist greidd voru færður inn í fjármálafyrirtæki sem halda utan um lélegar eignir. Þetta er fyrsta skipti í næstum þrjú ár sem dregur úr vanskilum.

AP-fréttastofan segir í umfjöllun sinni um málið að í nóvember í fyrra hafi lán upp á 191,63 milljarða evra flokkast til lána sem ólíklegt er að verði greidd. Upphæðin var komin niður í 167,48 milljarða í desember. Mismunurinn eru þau lán sem tekin voru úr bankakerfinu og færð undir þak SAREB, fyrirtækisins sem heldur utan um lélegar eignir.

Stofnun SAREB er hluti af þeim skilyrðum sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins setti fyrir veitingu 40 milljarða evra neyðarláns til Spánar.