Hagnaður Tryggingarmiðstöðvarinnar ársins 2006 nam 696 milljónum króna, en hagnaður árið 2005 var 7,2 milljaðrar króna, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Hagnaður TM á fjórða ársfjórðungi 2006 nam 232 milljónum króna, samanborið við 1,76 milljarða krónu hagnað árinu áður. Færður er einskiptiskostnaður hjá Nemi um tíu milljónir norskra króna á ársfjórðungnum.

Norska vátryggingafélagið Nemi er hluti af samstæðu TM frá 1. september 2006 og hefur áhrif á samanburð rekstrar og efnahags TM á milli ára, segir í tilkynningunni.

Bókfærð iðgjöld af vátryggingastarfsemi á Íslandi jukust um 21% og námu 7,28 milljörðum króna. Heildarvöxtur í bókfærðum iðgjöldum nam 61% og voru þau 9,7 milljaðar króna.

Á árinu var rekstrartap af vátryggingastarfsemi 358 milljónir króna, samanborið við 481 milljón krónu tap á árinu 2005. Tap af innlendri vátryggingarstarfsemi var 48 milljónir króna á árinu.

Hagnaður á hlut á árinu nam 0,75 krónu. Fjárfestingatekjur félagsins námu 4,8 milljörðum króna á árinu en voru 7,7 milljarðar króna árið áður.

Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um 1,25 milljarða króna á árinu 2006, en var jákvæð um 2,68 milljaðrar króna árið áður.

Heildareignir TM jukust um 125%, úr 30,8 milljörðum króna þann 31. desember 2005 í 69,4 milljarða króna þann 31. desember 2006.

Óskar Magnússon, forstjóri TM, segir mikinn vöxt hafa einkennt starfsemi félagsins árið 2006 hvort sem horft er til rekstrar eða efnahags. Vátryggingarstarfsemi sé nú tvíþætt ? annars vegar vátryggingastarfsemi móðurfélags og hins vegar vátryggingarstarfsemi dótturfélagsins Nemi í Noregi sem gert er upp með rekstri móðurfélags TM í fjóra mánuði 2006. Ríflega 20 milljón NOK hagnaður var af starfsemi Nemi á árinu 2006 en tæplega sex milljónNOK tap var af rekstri félagsins þá fjóra mánuði sem það var í eigu TM .

Bókfærð iðgjöld af vátryggingastarfsemi á Íslandi jukust um 21% frá árinu áður og námu 7.282 m.kr. árið 2006. Að meðtöldum iðgjöldum Nemi þá nemur aukning bókfærðra iðgjaldatekna samstæðunnar 61% en þær voru 9.682 m.kr. árið 2006. Tjónaþróun tveggja vátryggingagreina á Íslandi er áhyggjuefni. Frjálsar ökutækjatryggingar voru reknar með miklu tapi og var gripið til ráðstafana til að snúa þeirri þróun við undir lok ársins. Áframhaldandi tap er af slysatryggingum sjómanna og var gripið til tvíþættra ráðstafana vegna þessa árið 2006. Annars vegar öflugrar forvarnarstarfsemi en einnig hækkun iðgjalda. Í Noregi urðu tvö skipatjón á fjórða ársfjórðungi sem hafa mikil áhrif á vátryggingastarfsemi Nemi á tímabilinu, segir í tilkynningunni.

Eignasafn félagsins er nú mun dreifðara en verið hefur. Á síðasta ári réð gengisþróun í einu félagi stærstum hluta af gangvirðisbreytingum. Á þessu ári skýrir hins vegar gengi all margra félaga stærstan hluta gangvirðisbreytinganna, þar af er um þriðjungur vegna gengishækkunar í skráðum félögum erlendis. Tap er hins vegar af hlutdeildarfélögum sem skýrist fyrst og fremst af tapi vegna ISP ehf., en aðaleign þess félags er Icelandic Group hf., segir í tilkynningunni.

?Efnahagur félagsins hefur rúmlega tvöfaldast á árinu. Í septembermánuði var að fullu gengið frá kaupum á norska tryggingafélaginu Nemi sem er nú að fullu í eigu TM. Í þeim tilgangi var eigið fé TM aukið um sex milljarða króna á fjórða ársfjórðungi með útgáfu nýs hlutafjár,? segir Óskar.