Nú þegar kanarífuglinn í kolanámunni liggur á jörðinni óvígur eftir að hafa andað að sér gufunni sem stafar af hinum eitruðu veðum, beinast spjótin að sjálfum námuvinnslumönnunum.

Í vikunni lagði ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins fram drög að fjárlögum næsta árs. Um er að ræða meiriháttar stefnubreytingu hjá hinum ekki svo „nýja“ Verkamannaflokki, þ.e. afturhvarf til mikillar skuldsetningar ríkisins.

Með þessu er vonast til þess að afstýra megi djúpstæðri niðursveiflu í breska hagkerfinu.

Drögin að fjárlögum bresku ríkisstjórnarinnar ganga í berhögg við stefnu Verkamannaflokksins í valdatíð Gordons Brown forsætisráðherra og Tonys Blair, forvera hans í embætti.

Sú stefna markaðist af því að viðhalda nánu og góðu sambandi stjórnvalda við fjármálageirann, forðast skattahækkanir og viðhalda aðhaldssemi í ríkisfjármálum.

Drögin að fjárlögunum marka vatnaskil því að hún felur í sér hækkanir á tekjuskatti hálaunafólks og gríðarlegri aukningu skuldsetningar ríkisins.

Fjármálaráðuneyti landsins gerir ráð fyrir að hallinn á ríkissjóði verði kominn í 8% af landsframleiðslu á næsta ári og hefur slíkt hlutfall ekki sést síðan á áttunda áratug nýliðinnar aldar. Skuldir hins opinbera nema nú 40% af landsframleiðslu en gert er ráð fyrir að hlutfallið verði komið í 60% eftir ríflega ár.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í helgarblaði Viðskiptablaðsins.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .