Norska skipasmíðastöðin Fiskestrand Verft AS sem að mati Vegagerðarinnar og Ríkiskaup voru með hagstæðasta boðið í smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju dró tilboð sitt til baka í fyrradag. Þetta gerðist skömmu fyrir skýringafund með fulltrúum kaupenda. Frá þessu er greint í frétt Morgunblaðsins .

Sigurður Áss Grétarsson, framkvæmdastjóri siglingasviðs Vegagerðarinnar, segir í viðtali við Morgunblaðið að engin skýring hafi fengist á því af hverju þeir drógu tilboðið til baka.

Lægstu tilboðin sem bárust í verkið námu 2,7 til 2,8 milljörðum, sem er um 800 milljónum undir kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar. Lægsta tilboðið var frá kínversku skipasmíðastöðinni Nontong Rainbow Offshore and Engineering en tilboð Fiskestrand var örlítið hærra.