Eftir dóma MDE og Hæstaréttar í skattamálum, þar sem línan um samþættingarprófið var dregin, hefur nær undantekningalaust verið farið fram á frávísun þeirra frá dómi af hálfu verjenda sakborninga. Minnst sjö sinnum hefur Landsréttur staðfest frávísun frá héraði en í þrígang hafa mál verið send á ný heim í hérað. Nokkurrar þreytu gætir meðal þeirra sem starfa í slíkum málum vegna þess hve farvegur þeirra er oft óljós.

„Línan sem Hæstiréttur dró er matskennd, í raun töluvert mikið matskennd, og skilur eftir svið sem býður upp á að menn láti á þetta reyna. Því er það svo að undanbragðalaust í skattamálum er gerð krafa um frávísun út af tvöfaldri málsmeðferð,“ segir Símon Sigvaldason, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur.

Dómstjórinn segir að það liggi í hlutarins eðli að slíkt hafi talsverð áhrif á dómstólana. Þeir taki þó að sjálfsögðu við þeim málum sem til þeirra berast. Það sé hins vegar enginn vafi á því að þetta skapi réttaróvissu, aukna vinnu og aukinn kostnað við málinn. Allur tími kosti peninga, bæði í vinnu dómsins og málsvarnarlaunum verjenda.

„Eftir því sem dómum á áfrýjunarstigi fjölgar verður línan skýrari og skýrari. En staðan nú kallar á að línan sé fundin í gegnum þessa erfiðu vinnu. Hún lengir málsmeðferðina sem er ekki í þágu þeirra sem eru bornir sökum. Þá liggur einnig gríðarlegur kostnaður hjá ákæruvaldinu í að fara yfir þessi mál,“ segir Símon.

Andaglas ekki góð lögfræði

Heimildir blaðsins herma að staðan sem uppi er hafi í einhverjum tilfellum haft áhrif á starfsanda þeirra sem vinna við þau. Innan stjórnsýslunnar sé starfsfólk ekki hoppandi kátt yfir því að hefja rannsókn sem alls kostar óvíst sé að muni bera einhvern ávöxt. Þá er ekkert leyndarmál að lögmenn hafa lengi verið ósáttir hvernig í pottinn er búið. Þá sagði héraðsdómarinn Guðjón St. Marteinsson, við þingfestingu slíks máls í september, að hann „[hefði] engan hitt, ekki verjanda, sækjanda eða dómara, sem telur að þetta sé í lagi.“

Heimildir blaðsins herma enn fremur að meðal afleiðinga lengri málsmeðferðartíma fyrir dómstólum, meðal annars vegna fjölda frávísunarkrafna, sé að hálfgerður flöskuháls hafi myndast hjá ákæruvaldinu. Oft geti tekið langa stund þar til mál berast þangað og þar til ákæra sé gefin út.

„Ef það er óvissa þá stígur héraðsdómur oft varlega til jarðar og eftirlætur Landsrétti að höggva á hnútinn. Þetta ástand er ekki gott og eykur vinnu sem alla jafna ætti að ganga nokkuð snurðulaust fyrir sig. Þetta eykur álagið á öllum stöðum,“ segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.

„Ég verð að segja að fyrir mitt leyti er ég drulluþreyttur á þessu. Þetta hefur verið í gangi í einhver tíu ár,“ segir Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.

Helgi Magnús segir að í kjölfar dóma MDE hafi ríkið, og þar með þau sem vinna að málunum, setið undir ásökunum um að hafa viljandi brotið á mannréttindum sakborninga. Það sé hins vegar ekki tilfellið. Fyrirkomulagið hafi verið svona um langt árabil og það sé ekki hlutverk þeirra sem sækja málin að giska á hvað MDE kunni að gera næst.

„Við höfum alla tíð unnið í þessu umhverfi eftir okkar bestu vitund. Upphaflega kvað Hæstiréttur upp dóm um að þessi meðferð stæðist og við fylgdum því á meðan málið mallaði áfram fyrir MDE. Það hefði verið ágætt ef dómararnir í Strassborg hefðu komið eilítið fyrr með sína túlkun. Töfin þýddi að hér voru brotin mannréttindi á fullt á fólki meðan við, sem unnum af heilindum og töldum okkur gera rétt, biðum eftir niðurstöðu!“ segir Helgi Magnús. „Það er ekki góð lögfræði að vera í einhverju „andaglasi“ og reyna giska á hverju MDE tekur upp á næst. Við töldum okkur gera rétt. Afleiðingin er hins vegar sú að hellings vinna er lögð í mál hjá skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara sem fara síðan beint í ruslafötuna.“

Viðbragðaleysi dapurlegt

„Það er leitt að við höfum ekki brugðist betur við þessum dómum. Mannréttindabrot eru í eðli sínu alvarlegt mál og ég hefði haldið að það væri álitið áríðandi að tryggja að Ísland væri ekki að brjóta gegn MSE,“ segir lögmaðurinn Reimar Pétursson.

Sem fyrr segir var fyrrgreind nefnd um dómana skipuð um tveimur árum eftir að dómur í máli Jóns Ásgeirs og Tryggva var kveðinn upp. Nefndin skilaði tillögum sínum til dómsmálaráðherra í september en enn hefur ekki verið sagt frá því hvað í þeim felst eða hvað verður gert við þær. Má þó leiða að því líkur að deilur í kringum ríkislögreglustjóra og mál er varða gráan lista FATF hafi verið í forgangi innan dómsmálaráðuneytisins síðustu mánuði.

„Það er þekkt, og hefur verið þekkt lengi, að í skattamálum er kerfislægur vandi. Það hrönnuðust upp vísbendingar fyrir árið 2010 um að hér gæti pottur verið brotinn. Síðan féllu dómar sem varða Finnland og Svíþjóð sem renndu enn frekari stoðum undir þetta. Að mínu mati er að hér hafi stjórnvöld í kjölfar dóms MDE árið 2017 brugðist við eins og þau hafi verið gripin í bólinu. Við erum í þessu MSE samstarfi og eðlilega getum við ekki búist við því að það muni aldrei verða kveðnir upp áfellisdómar er varða Ísland. Við hljótum hins vegar að fylgjast með dómaframkvæmd og vísbendingum um að hér kunni brot að vera framin. Síðan hlýtur að vera metnaðarmál að reyna að búa þannig um hnútana að verulega sé dregið úr líkum á að slík brot eigi sér stað,“ segir Reimar. „Nema það sé stefna stjórnvalda að vera alltaf á ystu nöf gagnvart MSE og MDE. Ef það er viðhorfið er rétt að spyrja sig að því hve frjálslynt og áhugavert slíkt samfélag er.“

Frumvarpsdrög til að „plástra“ stöðuna tímabundið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í vikunni og verður frumvarp lagt fram á þingi áður en það fer í jólafrí. Meðan bráðabirgðaákvæði eru í gildi er stefnt að því að ljúka vinnu til að bregðast við.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .