Skúli Oddgeirsson, verslunarstjóri hjá Samsungsetrinu segir sína reynslu að fólk velji jólagjafir í tveimur verðflokkum þegar það velur rafmagnstæki.

„Í öðrum flokknum eru myndavélar, hljómtæki og símar í verðflokknum frá 20 til 40 þúsund krónur. Í hinum flokknum er svo fólk sem er að kaupa gjafir fyrir heimilið eins og sjónvörp og betri hljómflutningssamstæður á verði frá 100 til 500 þúsund krónur. Þeir sem kaupa þannig gjafir hugsa oft með sér að það sé gaman að gefa fjölskyldunni allri fallega jólagjöf og oftar en ekki er það gott sjónvarp.“

46 tommu sjónvörp vinsælust

„Það er hægt að velja á milli þriggja gerða af flatskjá með LED, LCD eða plasma. Þegar flatskjárinn kom fyrst á markað þótti plasmaskjárinn bestur en síðan hefur tæknin í hinum tækjunum þróast mikið og farið fram úr plasmatækninni. LED tækin eyða líka minna rafmagni og líftími skjásins er lengri.

Í dag kostar gott 32 tommu sjónvarp um hundrað þúsund krónur en vinsælasta stærðin hjá okkur í dag er 46 tommur. Gæðin í þeim tækjum eru mjög mikil og þola vel að það sé setið nálægt þeim án þess að myndin verði kornótt.

46 tommu tækin sem við seljum mest af í dag kosta frá 300 og upp í 350 þúsund krónur. Það eru svokölluð SMART LED tæki með netvafra og möguleika á að horfa á myndir í þrívídd,“ segir Skúli.

Nánar er fjallað um græjurnar í Jólagjafahandbókinni sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.