Stuðningsmenn Barack Obama, bandaríkjaforseta, í gær af stað umfangsmikla auglýsingaherferð gegn Mitt Romney, sem á morgun mun taka formlega við útnefningu Repúblikanaflokksins sem forsetaefni flokksins í komandi kosningum í haust.

Á vef Bloomberg fréttaveitunnar kemur fram að auglýsingaherferðin kostar um 30 milljónir Bandaríkjadala. Henni er stýrt af formlegu stuðningsfélagi Obama, Priorities USA Action, sem aftur er stýrt af fyrrverandi samstarfsmönnum og nánum ráðgjöfum forsetans.

Í einni auglýsingunni er m.a. haft eftir Olive Chase, sem er sögð óflokksbundinn og rekur sitt eigið fyrirtæki í Massachusetts þar sem Romney var áður ríkisstjóri. Í umræddri auglýsingu greinir hún frá því að hún hafi kosið Romney í ríkisstjórakosningunum árið 2002 og styrkt kosningabaráttu hans með fjárframlagi. Nú, tíu árum síðar, sé hún hins vegar ekki lengur stuðningsmaður hans. Þá segir Chase í auglýsingunni að Romney hafi eingöngu áhuga á stórum fyrirtækjum og skattaafsláttum fyrir efnasterka einstaklinga en gefi líti fyrir duglega starfsmenn sína. Vart þarf að koma á óvart að í lok auglýsingarinnar segist hún ætla að kjósa Obama í kosningum í nóvember.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Priorities USA Action fer af stað með umfangsmikla auglýsingaherferð gegn Romney. Í vor varði hópurinn um 20 milljörðum dala í auglýsingar þar sem fjallað var um viðskiptafortíð Romney en hann hefur sem kunnugt er efnast nokkuð sem forstjóri fjárfestingafélagsins Bain Capital. Í auglýsingunum er Romney sagður hafa hagnast verulega fyrir sig og vini sína á kostnað vinnandi almennings.

Talsmenn kosningabaráttu Romney gefa þó lítið fyrir auglýsingarnar og segja þær örvæntingafulla leið stuðningsmanna Obama til að dreifa athyglinni frá lélegum árangri forsetans í efnahagsmálum.

„Stefna Obama hefur valdið bandarískri millistétt miklum skaða, sem sýnir sig best í háum atvinnuleysistölum og minni ráðstöfunartekjum,“ segir Amanda Henneberg, talsmaður kosningaherferðar Romney.