Eins og margir vita stendur nú yfir Evrópumeistaramót í fótbolta. Meðaláhorf á slíkt sjónvarpsefni er um 30%. Mótið er með vinsælla sjónvarpsefni hjá mörgum og verða leikirnir að þessu sinni sýndir á RÚV. Viðskiptablaðið ræddi við Einar Loga Vignisson, auglýsingastjóra RÚV, um verðlagningu auglýsinga sem sýndar eru í tengslum við leikina.

„Verð á einstökum dagskrárliðum fer eftir framboði, eftirspurn og áhorfi. Þar af leiðandi er það þannig með íþróttaviðburði að því vinsælli sem þeir eru, þeim mun dýrari verða þeir. En það verð er sambærilegt við aðra þætti með sambærilegt áhorf,“ segir Einar Logi. Hann bendir á að finna megi þætti í hverri viku sem hafi svipað áhorf og EM í fótbolta og kosti auglýsingar á þeim tíma því svipaðar upphæðir. „Hvort sem það er Útsvar á veturna, þátturinn Alla leið eða Evróvisjón.

Auglýsingaverðið fylgir verðskrá þar sem sjónvarpsefni er raðað í flokkana A, B og C. Í flokki A er vinsælasta sjónvarpsefnið og er sekúnduverðið þar á bilinu 6.990- 14.990. Beðinn um verðdæmi segir Einar Logi að auglýsing á sýningartíma lokaleikja Evrópumótsins geti kostað um 150.000 krónur. Þá er um að ræða meðallanga auglýsingu, eða um 20 sekúndur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.