Öll sjónvörpin sem Samsungsetrið kynnti í síðustu viku eru uppseld. Næsta sending sem væntanleg er í næstu viku er líka uppseld. Sjónvörpin eru 75 tommur og kostar stykkið 1,6 milljónir króna. Aðeins fjögur tæki komu til landsins í síðustu viku og koma fjögur með næstu sendingu.

„Þeir sem eru að leita að stórum tækjum kaupa það stærsta,“ segir Skúli Oddgeirsson, verslunarstjóri hjá Samsungsetrinu. Hann bendir á að áhuginn á tækjunum sé ótrúlegur. Skúli segir í samtali við vb.is mikinn áhuga hafa verið á stóru sjónvörpunum frá Samsung upp á síðkastið. Næsta gerð fyrir neðan sem er 65 tommur hafi að sama skapi selst vel. Eitt slíkt sjónvarp kostar tæpa eina milljón krónur.

Skúli segir kaupendur blandaðan hóp, ýmist sé um að ræða fyrirtæki eða einstaklinga í fyrirtækjarekstri. Þá hafi þeir sem keyptu 65-tommu tækin á sínum tíma uppfært græjukostinn þegar þeir sáu að nýtt og stærra sjónvarp var væntanlegt.

Slík er ásóknin í sjónvörpin að Samsungsetrið sendingin sem kom í síðustu viku var uppseld áður en hún kom hingað til lands. Samsungsetrið átti því ekkert tæki eftir á lager þegar sjónvarpið dýra var kynnt með pompi og pragt í síðustu viku. Einföld lausn fannst á því.

„Við fengum tækið að láni hjá þeim sem keypti eitt fram yfir áramótin,“ segir Skúli.

Þeir sem vilja kynna sér tækið nánar geta skoðað það hér .