Forsvarsmenn breska lággjaldafélagsins easyJet áætla að um 400.000 farþegar nýti sér áætlunarflugið til og frá Íslands til sex breskra borga og Basel og Genf í Sviss. Undanfarið hafa íslenskir farþegar skipað 11 prósent sætanna í Íslandsflugi easyJet, samkvæmt því munu um 44 þúsund íslenskir farþegar fljúga frá Keflavík til áfangastaða flugfélagsins í Bretlandi og Sviss. Þessu greinir Túristi.is frá.

Í viðtali við Viðskiptablaðið segist Ali Gayward, framkvæmdastjóri easyJet, búast við að hlutfall Íslendinga um borð haldist óbreytt þrátt fyrir aukin umsvif í vetur og á næsta ári. Um 358.000 íslenskir farþegar innrituðu sig í flug í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og því er markmið easyJet að ná að lágmarki tíunda hverjum íslenska farþega um borð í sínar vélar.

Lægstu fargjöld easyJet til London í haust hafa lækkað um nærri helming frá því í fyrra, en þetta og kom fram í verðkönnun Túrista í byrjun vikunnar . Verð WOW air og Icelandair eru einnig umtalsvert lægri en í lok október mun easyJet fjölga ferðum sínum hingað frá höfuðborg Bretlands. Anna Knowles, talskona easyJet, segir að viðbótarflug til London geti haft þau áhrif að verðið lækki vegna aukins framboðs. Hún segir að það sé markmið easyJet að bjóða upp á fargjöld á viðráðanlegu verði frá öllum sínum áfangastöðum og með því að bóka með góðum fyrirvara má spara sér mikið.