Breska lággjaldaflugfélagið easyJet hefur bætt við sig flugleið til Íslands frá Stansted í London. Næsta vetur mun flugfélagið því fljúga hingað frá sjö breskum flughöfnum. Þessu greinir Túristi f rá.

EasyJet hóf flug til Íslands fyrir þremur árum frá Luton flugvelli við London og hefur bætt við sig sex breskum flugleiðum síðan þá. Nú verður flogið tvisvar í viku frá London Stansted til viðbótar öðrum flugleiðum félagsins og gera áætlanir félagsins ráð fyrir að árlega muni um 13 þúsund farþegar nýta sér flugleiðina. Ódýrustu fargjöldin frá Stansted frá Keflavík verða um 7.500 krónur en farþegar borga aukalega fyrir innritaðan farangur.

Útlit er fyrir að með fjölguninni verði í boði allt að 56 ferðir í viku frá Keflavík til London næsta vetur en þá hefur British Airways Íslandsflug á ný eftir nokkurra ára hlé.