Flugfélagið easyJet kynnir þrjár nýjar flugleiðir frá Íslandi. Flugfélagið mun hefja flug í lok október frá Keflavík til Gatwick-flugvallar í London og til Genfar í Sviss. Nýju flugleiðirnar þrjár verða starfræktar allt árið um kring. Þetta kemur fram í tilkynningu

Alls verða áfangastaðir easyJet í föstu áætlunarflugi frá Íslandi þá orðnir átta talsins, en fyrir flýgur félagið til London Luton, Bristol, Manchester, Edinborgar í Skotlandi og Basel í Sviss. Umsvif easyJet hafa stóraukist frá því að félagið hóf að fljúga héðan árið 2012 til Lundúna en alls eru nú floginn 13 flug á viku héðan með easyJet eða 52 flug á mánuði.  Þegar Belfast flugið fer af stað í desember verða mánaðarlegar brottfarir félagsins 100 talsins. Frá og með febrúar næstkomandi eykst tíðnin til London Luton og Manchester og þá verða brottfarir easyJet frá Íslandi orðnar 110 í hverjum mánuði. Nú í júlímánuði eru þær 52 þannig að um ríflega tvöföldun er að ræða. Þetta þýðir að easyJet verður næstumsvifasta flugfélagið í áætlunarflugi til og frá Íslandi yfir vetrartímann.

Fyrsta flugið til Gatwick-flugvallar í London verður farið 27. október næstkomandi og verður flogið þangað þrisvar í viku. Ódýrasta fargjaldið til Gatwick með easyJet verður 6.000 kr. (aðra leið). Fyrsta flugið til Genfar í Sviss verður einnig farið 27. október næstkomandi og verður flogið þangað þrisvar í viku. Lægsta fargjaldið verður 6.550 kr. (aðra leið). Fyrsta flugið til Belfast verður farið 12. des nk. og verður flogið þangað tvisvar í viku. Lægsta fargjaldið verður 6.000 kr. (aðra leið). Öll verðin eru með sköttum og gjöldum en án töskugjalds. Sala farmiða til nýju þriggja áfangastaðanna þriggja er hafin á heimasíðu félagsins, www.easyJet.com .

Flugfélagið áætlar að flytja um fjögur hundruð þúsund farþega á flugleiðum sínum til og frá Íslandi árið 2015. Búist er við að ferðamenn sem koma hingað til lands með easyJet muni skila um fjörtíu milljörðum króna í gjaldeyristekjur á næsta ári.

Ali Gayward, framkvæmdastjóri easyJet í Bretlandi segir þetta vera stóran áfanga í bættri þjónustu easyJet við Íslendinga með því að bjóða þeim upp á hagstætt beint flug til Gatwick-flugvallar. Bæði fyrir viðskiptaferðir og fólk á leið í frí. Hún segir flugvöllinn vera jafnframt góðan valkost fyrir íslenska ferðamenn á leið til annarra áfangastaða í Evrópu þar sem umsvif þeirra á Gatwick séu mjög mikil, en alls fljúga þeir til 108 borga í beinu flugi þaðan.

Hún segir þá vilja vinna með Íslendingum að því hvernig megi best stýra ferðamannastrauminum hingað til lands. Þau hafi skoðað bakgrunn þeirra sem ferðast með easyJet til Íslands og sjá að landið höfðar einna helst til ferðamanna með rúm fjárráð, enda er Ísland ekki ódýr áfangastaður.

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, segir þetta vera mjög góðar fréttir fyrir íslenska ferðaþjónustu og fyrir uppbyggingu flugvallarins. Þeir hafi unnið markvisst með ferðaþjónustuaðlium að því að kynna Ísland sem vetraráfangastað. Hann segir þessar nýju flugleiðir easyJet vera enn ein stoðin undir vetrarferðamennsku á Íslandi og munu hjálpa til við að dreifa ferðamönnum utan háannatímans. Hann segir þetta sömuleiðis vera jákvæðar fréttir varðandi nýtingu flugstöðvarinnar en flug easyJet eru yfirleitt að koma og fara rétt utan við þann tíma dags sem mestar annir eru á flugvellinum. Þá skapi þetta meiri möguleika fyrir ferðalög Íslendinga.

Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir það vera mjög ánægjulegt fyrir íslenska ferðaþjónustu að easyJet skuli nú fjölga ferðum til Íslands, sér í lagi yfir vetrartímann. Það hafi lengi verið keppikefli þeirra sem starfa í ferðaþjónustunni að lengja ferðamannatímabilið og minnka sveiflu á milli árstíða. Breskir ferðamenn ferðast nú í ríkara mæli til Íslands yfir vetrartímann og styður það við þau markmið þeirra að lengja ferðamannatímabilið.