Yfirtökur og sameiningar í banka- og tryggingageiranum innan Evrópusambandsins þurfa ekki að sæta íhlutun frá seðlabönkum og fjármálaeftirlitsstofnunum, ef ný tillaga Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins verður samþykkt.

Tillagan kemur í kjölfar aukinnar verndarstefnu aðildarríkja gagnvart slíkum viðskiptum. En á síðasta ári reyndi forstjóri Seðlabanka Ítalíu, Antonio Fazio, að koma í veg fyrir að yrði af kaupum tveggja erlendra aðila á ítölskum bönkum, þrátt fyrir að samkeppnisyfirvöld Evrópusambandsins hefðu þegar heimilað kaupin. Fazio var sakaður um að reyna að tryggja ítölskum fjárfestum söluna. Með því að færa vald frá yfirvöldum aðildarríkjanna vonast Framkvæmdarstjórnin til að forðast slíkan ágreining í framtíðinni, en Fazio var að lokum neyddur úr embætti og stefnu bankans breytt í kjölfar þess.

Í núverandi löggjöf Evrópusambandsins er ákvæði sem heimilar stjórnvöldum að mótmæla sameiningum og yfirtökum ef hætta er talin á að rekstur bankans muni ekki fara fram með viðunandi hætti, en þetta ákvæði þykir óljóst og hefur valdið ákveðnu óvissuástandi.

Í framtíðinni munu yfirvöld aðildarríkjanna aðeins getað haft áhrif á yfirtökur og sameiningar í geiranum ef þau telji að kaupandinn standist ekki eitt eða fleiri af fimm nýjum viðmiðum Evrópusambandsins: Að orðspor kaupandans sé ófullnægjandi, að orðspor og reynsla þeirra sem sjá munu um rekstur stofnunarinnar séu ófullnægjandi, að fjárhagsleg staða kaupandans sé óstöðug, að kaupin standist ekki bankalöggjöf Evrópusambandsins eða að grunur sé um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka.