Velta Eimskipafélagins [ HFEIM ] jókst mikið á milli ára á fjórða ársfjórðungi og nam 502 milljónum evra, samkvæmt uppgjöri félagsins sem var birt eftir lok markaðar í dag. Veltan er engu að síður undir meðalspá greiningardeilda sem hljóðaði upp á 535 milljónir evra. Á árinu tók félagið yfir rekstur Atlas og Versacold sem meðal annars útskýrir veltuaukninguna.

EBITDA, það er hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir, nær áttfaldaðist á milli fjórðunganna tveggja; fjórða fjórðungs 2007 og 2006, líkt og sjá má á meðfylgjandi töflu og var 6 milljónum evra yfir meðalspá.

Tap félagsins á fjórða fjórðungi nam 7,8 milljónum evra, sem er svipað og meðalspá, sem hljóðaði upp á 7 milljóna evra tap. Ef tap af aflagðri starfsemi er undanskilið nam tap áframhaldandi starfsemi 4,2 milljónum evra, sem er töluvert minna en í sama fjórðungi ári fyrr. Samanburður á milli ára er erfiður vegna mikils söluhagnaðar á fyrra ári, sem skýrir þann mikla hagnað sem sést í töflunni á fjórða fjórðungi árið 2006 þegar aflögð starfsemi er ekki undanskilin.

„Samfara kaupunum jókst skuldsetning félagsins, til skamms tíma," segir Baldur Guðnason, forstjóri Eimskipa í fréttatilkynningu. „Ákveðið var að auka ekki hlutafé félagsins vegna þessara kaupa heldur að selja fasteignir félaganna í Norður Ameríku. Sölu eigna að andvirði um 500 milljónir evra er lokið. Á öðrum ársfjórðungi 2008 er stefnt að því að ljúka sölu á fasteignum að verðmæti um 700 milljóna evra. Að því loknu er gert ráð fyrir að eiginfjárhlutfall félagsins verði um 25%," segir hann. Eigið fé var 18,3% við lok síðasta fjórðungsins.

Rekstur Eimskipafélagsins hefur tekið stakkaskiptum frá því að nafni þess var breytt úr Avion Group í árslok 2006, en í upphafi ársins 2006 voru tekjusviðin þrjú (Aviation Services, Charter & Leisure and Shipping and Logistics). Rekstur sem ekki tengist flutningaþjónustu hefur verið seldur. Það síðasta sem eftir var, 49% hlutur í Northern Lights Leasing, sem á flugflota Air Atlanta, var selt um síðustu áramót.