*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 13. júní 2021 16:28

Eðlilegur útboðsafsláttur?

Viðmælendur blaðsins segja það ekki endilega afleik að selja bréf í Íslandsbanka á lægra verði fyrir skráningu en því hæsta mögulega.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Von er á margfaldri umframeftirspurn í hlutafjárútboði Íslandsbanka. Yfir 50 milljarða boð bárust í alla hluti til sem til sölu eru á fyrsta degi útboðsins og talið er líklegt að tilboð muni hlaupa á hundruð milljarða króna í 25-35% hlut sem ríkið hyggst selja í bankanum en útboðinu líkur á hádegi á þriðjudaginn.

Sjá einnig: Búast við hundruð milljarða áskriftum

Telja má líklegt miðað við áhugann – og verðmöt greiningaraðila fyrir útboðið renna undir það enn frekari stoðum – að útboðsverðið sé nokkuð undir því sem hægt hefði verið að fá. Viðmælendur Viðskiptablaðsins segja það þó ekki endilega afleik; að mörgu sé að huga þegar ráðist sé í útboð af þessu tagi, sér í lagi þar sem ríkið muni áfram sitja eftir með að lágmarki 65% hlut.

Séu bréfin seld á eins háu verði og hægt sé að fá, og standi svo í stað eða jafnvel lækki á eftirmarkaði í kjölfarið, geti það haft talsverð neikvæð áhrif á áhuga og verð í næsta útboði eða útboðum, verði af þeim. Á móti geti skapast mikil eftirvænting eftir næsta útboði ef vel takist til og allir gangi sáttir frá borði, að minnsta kosti hvað verðið varðar.

Auk þess verði að horfa til þess að stór áhrifaþáttur verðsins sé framtíðareignarhald bankans. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur gefið það út að hann vilji selja það sem eftir er af Íslandsbanka við fyrsta tækifæri á næsta kjörtímabili, og jafnframt að seldur verði stór hluti Landsbankans. Í núverandi eigandastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki er lagt upp með að Íslandsbanki verði seldur að fullu áður en hafist verður handa við sölu Landsbankans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér