„Spurning hvort forysta BHM sé trúverðug og hvort hægt sé að eiga í viðræðum við félagið meðan því er stýrt af Samfylkingunni,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í nýlegri færslu á Facebook síðu sinni. Þar vísar hann til tengsla formanns BHM, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, til Samfylkinguna. Hún var alþingismaður og umhverfisráðherra fyrir hönd Samfylkingarinnar frá 1999 til 2011 og framkvæmdastjóri flokksins.

„Framkvæmdastjóri félagsins er augljóslega hvergi hætt í pólitík,“ segir Gunnar Bragi ennfremur í færslu sinni. Í samtali við fréttastofu RÚV um málið segir Gunnar Bragi að óheppilegt sé að hún hafi fyrir skemmstu verið framkvæmdastjóri flokksins.

„Ég bara velti því fyrir mér hvort pólitíkin geti mögulega blindað formann, í þessu tilviki, þannig að það sé meiri áhersla lögð á pólitíkina heldur en ákkurat þær kjaraviðræður sem þurfa að fara fram. Mér finnst mjög óheppilegt að svona stór og mikilvæg samtök, fullt af mikilvægu og góðu fólki innanborðs skuli lenda í því að vera með formann sem er svo hápólitískur sem raun ber vitni,“ segir Gunnar Bragi í samtali við RÚV.