Framundan er endurnýjun á tveimur samsíða jarðgöngum í N-Noregi, Trömsöysundtunnelen, sem tengja 72.000 manna byggð á Tromsö eyju við meginland Noregs. Göngin eru aðalumferðaræðin frá Tromsø til meginlandsins og um þau aka að meðaltali um 15 þúsund bílar á sólarhring. Breytingunum er ætlað að auka umferðaröryggi vegfarenda.

EFLA verkfræðistofa hefur með höndum tæknilega ráðgjöf og heildarhönnun framkvæmdarinnar. Verkefnið er tæknilega flókið og afar krefjandi á framkvæmdatíma, þar sem halda þarf göngunum virkum allan tímann. Verkefnið er umfangsmikið og hafa starfsmenn EFLU á fjölmörgum sviðum lagt hönd á plóginn síðustu 30 mánuðina. EFLA skilaði nýverið af sér útboðsgögnum vegna verksins.

„Verkefnið krefst mikillar samræmingar á umferðstýringum við útskiptingu á búnaði ganganna, þar sem öll kerfi í göngunum þurfa að vera virk á verktíma. Þetta gerir miklar kröfur um tæknilegar útfærslur og framkvæmdaröð,“ segir Kristinn Hauksson rafeindatæknifræðingur og verkefnastjóri verksins hjá EFLU.

Unnið verður bæði með næturlokunum og víxlandi umferð í göngunum með á verkinu stendur. Framkvæmdatíminn er áætlaður 18 mánuðir og hefst verkið næsta vor.