Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands stendur fyrir opnum fyrirlestri á þriðjudag, 30. október, kl 12:00 -13:00 í Norræna húsinu. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.

Þróun frjálsrar viðskiptastefnu og sérstakra viðskiptasamninga af hálfu kínverskra stjórnvalda er nýtilkomin, en fyrir aðeins um áratug hafði Kína nokkrar áhyggjur af því hvernig mætti afnema viðskiptahöft án þess að hætta efnahagsumbótum. En í ljósi bæði aukins sjálfstrausts Kína í efnahagsmálum (eins og sjá má t.d. á hugmyndinni um Beijing Consensus, sem er að mótast) og breytinga á alþjóðaviðskiptakerfinu, er Kína farið að styðja bæði tvíhliða og marghliða viðskiptasamninga.

Þetta má sjá í stuðningi kínverskra stjórnvalda við bæði APEC og ASEAN+3, auk þess sem kínversk stjórnvöld eru farin að líta út fyrir Asíu í leit að viðskiptasamböndum. Evrópa hefur sýnt mikinn áhuga á þróun viðskiptatengsla við Kína en Ísland er nú fyrst evrópskra ríkja í samningum við Kína um fríverslunarsamninga og niðurstaða þeirra samninga gæti verið módel fyrir önnur Evrópulönd.

Marc Lanteigne kennir alþjóðasamskipti við St. Andrews háskóla í Skotlandi. Rannsóknir hans beinast einkum að uppgangi Kína sem pólitísks og efnahagslegs veldis og samskiptum Kína við alþjóðastofnanir. Hann kennir m.a. námskeið um kínversk stjórnmál og utanríkisstefnu. Hann hefur áður kennt við McGill og Dalhousie háskólana í Kanada og starfað við Asia Pacific Foundation þar í landi.

Hann er höfundur bókarinnar China and International Institutions: Alternate paths to Global Power og einn ritstjóra China at the Turn of the Millennium: Adaptation and the Reinvention of Legitimacy, auk þess sem hann hefur skrifað fjölda greina og bókakafla um málefni Kína. Hann rannsakar nú endurmótun utanríkisstefnu Kína eftir kalda stríðið og áhrif hennar á Evrópu og Norður-Ameríku. Sjá einnig á http://www.hi.is/ams .