Ráðgjafarfyrirtækið Poppins & Partners (P&P) hefur birt lista yfir 39 efnilegustu sprotafyrirtæki ársins 2020 , en listinn var settur saman í samstarfi við ráðgefandi sérfræðinga úr stuðningsumhverfi frumkvöðla. Listinn skiptist í fjóra flokka: Fræ, Græðlinga, Vaxtarsprota og Landnema.

Sprotafyrirtæki raðast í fyrstu þrjá flokkana eftir því hvar þau eru stödd í vaxtarkúrfunni, en í flokki Landnema eru sprotafyrirtæki sem Íslendingar vinna að á erlendri grundu.

Með birtingu listans er leitast við að varpa ljósi á þá sprota sem hafa unnið markverð afrek á árinu eða tekist að aðlaga sig sérstaklega vel að breyttum aðstæðum. Þetta er í fyrsta sinn sem P&P birtir slíkan lista og er markmiðið að gefa listann út árlega.

Markmið okkar með birtingu listans er að vekja athygli á þeirri grósku, framsækni og fjölbreytileika sem er í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi á Íslandi og hjá Íslendingum búsettum erlendis. Það hefur verið sérstaklega áhugavert að fylgjast með áræðni frumkvöðla á þessu einkennilega ári og höfum orðið varar við mikla aukningu í nýsköpun og þróun innan grasrótarfyrirtækja á öllum sviðum sem hafa séð sér hag í að svara nýjum og síbreytilegum þörfum samfélagsins. Það er von okkar að listinn verði hvatning fyrir fleiri frumkvöðla til að bretta upp ermar og láta hugmyndir sínar verða að veruleika því tækifærin til að stökkva um borð í nýsköpunarbátinn hafa sjaldan verið jafn mörg og núna, " segir í tilkynningu.

Vonast P&P til þess að listinn verði hvatning fyrir fleiri frumkvöðla til að bretta upp ermar og láta hugmyndir sínar verða að veruleika, og segja tækifærin til að stökkva um borð í nýsköpunarbátinn sjaldan hafa verið jafn mörg og núna.

Í ráðgjafarráði P&P listans þetta árið voru Álfrún Pálsdóttir, Bala Kamallakharan, Hanna Kristín Skaftadóttir, Haukur Guðjónsson, Kári Þór Rúnarsson, Kathryn Gunnarsson, Paula Gould og Þórunn Jónsdóttir.