Þrátt fyrir að kveðið sé á um það í lögum að áður en sjálfseignarstofnun veðsetji eignir sínar verði að fá samþykki sýslumanns og umsögn Ríkisendurskoðunar virðast þessar stofnanir gera lítið annað en að stimpla umsóknir stofnana, að sögn Sigurðar Rúnars Sigurjónssonar, framkvæmdastjóra Hjúkrunarheimilisins Eirar.

Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um að ekki hafi verið fengið samþykki Sýslumannsins á Sauðárkróki áður en fjórar fasteignir Eirar voru veðsettar Íbúðalánasjóði fyrir tvo milljarða króna. Sigurður segir að þar hafi eitthvað farist fyrir hjá Eir, en lánin voru tekin áður en hann tók við sem framkvæmdastjóri.

Hann segir hins vegar alvarlegra mál hvernig málsmeðferðinni er háttað hjá sýslumanni og Ríkisendurskoðun. „Um þetta er fjallað í skýrslu sem Deloitte gerði fyrir okkur og þar kemur fram að einhver kerfisvandi er í þessu ferli öllu. Eir var of skuldsett jafnvel áður en þessi lán voru tekin og eignirnar veðsettar og það er eitthvað rangt við að þetta skuli hafa farið í gegn hjá eftirlitsaðilunum á þessum tíma.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .