Nýr seðlabankastjóri verður skipaður þann 20. ágúst næstkomandi en þá rennur skipunartími Más Guðmundssonar út. Sextán umsóknir um starfið bárust.

Meðal verkefna á könnu nýs stjóra verður að innleiða breytingar sem gerðar verða á bankanum næstu áramót. Fyrsta umræða um frumvarp til nýrra heildarlaga um Seðlabankann fór fram á Alþingi í upphafi vikunnar. Í frumvarpinu felst að bankinn og Fjármálaeftirlitið sameinist og að framvegis verði eftirlit með fjármálastarfsemi í höndum hinnar sameinuðu stofnunar.

Sameining lengi til umræðu

Talsverð umræða var á árunum eftir hrun hvort rétt væri að sameina stofnanirnar tvær þar sem ábyrgð á eftirliti með bönkunum og fjármálastöðugleika væri of dreifð. Sú leið var þó ekki farin heldur afráðið að samstarf milli þeirra yrði aukið. Sérstökum vettvangi til samstarfs, fjármálastöðugleikaráði, var komið á fót með lögum árið 2014. Frumvarpið byggir á vinnu starfshóps sem skilaði af sér skýrslu í júní 2018 en að auki liggur fyrir fjöldi skýrslna og úttekta frá innlendum og erlendum sérfræðingum og stofnunum. Með breytingunum er stefnt að því að auka skilvirkni og upplýsingaskipti og bæta heildaryfirsýn á kerfisáhættu.

Meginmarkmið Seðlabankans eftir sameiningu verður þríþætt, að stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustum og öruggum fjármálamarkaði. Uppbygging stofnunarinnar verður með hliðsjón af þessu. Skipaðir verða þrír varaseðlabankastjórar og fjölgar þeim þá um tvo. Embættismennirnir þrír munu skipta með sér verkum eftir hinum nýju markmiðum. Einn þeirra mun fara fyrir málefnum er varða peningastefnu, annar málefni fjármálastöðugleika og sá þriðji hefur fjármálaeftirlit á hendi. Líkt og með seðlabankastjórann verða þeir skipaðir til fimm ára í senn og að hámarki í tvö skipti. Forsætisráðherra mun skipa þá að fenginni tilnefningu frá fjármála- og efnahagsráðherra. Heimilt verður að skipa núverandi aðstoðarseðlabankastjóra í eina af stöðunum þremur og þá mun skipun nýs seðlabankastjóra halda gildi sínu þegar nýju lögin taka gildi.

Fjöldi ríkja farið sömu leið

Fjöldi ríkja hefur farið sambærilega leið í kjölfar efnahagsáfallsins sem skók heimsbyggðina fyrir rétt rúmum áratug. Misjafnt er þó hve langt er gengið hverju sinni. Bent hefur verið á það af ýmsum aðilum, meðal annars Paul Tucker, fyrrverandi varabankastjóra breska seðlabankans, að liggi ábyrgð ogmarkmið einnar stofnunar víða sé nauðsynlegt að innan hennar séu aðskildar nefndir um ákvarðanatöku með tilliti til hinna mismunandi markmiða. Slíkt dragi úr líkum á því að hagsmunir eða dómgreindarbrestur einstaklinga ráði för. Aðkoma utanaðkomandi nefndarmanna tryggi aðhald og stuðli að því að tekið verði tillit til fleiri sjónarmiða við ákvarðanatöku. Nefndirnar verða, líkt og meginmarkmiðin, þrjár talsins.

Nánar er fjallað um málið og umsækjendur um stöðu seðlabankastjóra í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .