Bjarni Benediktsson, þingmaður og formannsframbjóðandi Sjálfstæðisflokksins, segist kannast við að sumir túlki orð Kristjáns Þórs Júlíussonar mótframbjóðand síns um pólitískan frama á silfurfati sem sneið til sín.

„En ég tek þau ekki persónulega,“ segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Kristján Þór sagði í tilkynningu er hann kynnti framboð sitt til formennsku í flokknum um liðna helgi að hann hefði ekki fengið völd eða pólitískan fram á silfurfati.

Þegar Bjarni er spurður út í þau ummæli svarar hann:

„Í pólitík ávinna menn sér traust. Ég hef farið í tvígang í gegnum prófkjör og fengið mikinn stuðning, þannig að ég hef enga ástæðu til að taka þetta til mín. Ég er í grunninn einn af strákunum  úr Garðabænum sem var í íþróttum og bæjarvinnunni eða í handlangi á sumrin. Það hefur gjarnan verið þannig að ég hef þurft að hafa fyrir því sem ég er að fást við. Þegar ég var í íþróttunum, til dæmis, komust menn ekki í lið nema þeir leggðu sig fram. Ég tók þátt í því sem ungur maður að koma liði Stjörnunnar í efstu deild í fótbolta og dugðu engin vettlingatök til þess. Maður fer ekki í gegnum háskólanám á ættartengslum eða vináttu. Maður kemst heldur ekki í gegnum erfiðar umræður á þinginu á einhverju slíku.  “

Nánar er rætt við Bjarna Benediktsson í Viðskiptablaðinu sem kom út í kvöld.