Eigendahópur sé sem stóð að rekstri Heklu mun reka Öskju og Árfell-Kia áfram og sagði Hjörleifur Jakobsson, stjórnarformaður Heklu, að staða þeirra félaga væri viðunandi.

Hann sagði að niðurstaðan núna væri vissulega vonbrigði en menn hefðu unnið málið áfram með Kaupþing sem nú hefur tekið yfir reksturinn.

Að sögn Hjörleifs hefur núverandi eigendahópur barist við rekstur á félaginu í rúmlega fjögur ár. Árin 2006 og 2007 gekk það mjög vel.

,,Svo lentum við bara á vegg árið 2008 þegar þessi kreppa skall á mönnum af fullum þunga. Það var ljóst strax í fyrravor að þetta yrði erfitt og við fórum þá í viðræður við bankann um endurfjármögnun félagsins. Við náðum samningum um það í lok september um að við kæmum með ákveðið fjármagn inn og bankinn hjálpaði okkur í gegnum þetta. Þá féllu bankarnir og þá breytust allar forsendur, bæði af hálfu þeirra og okkar og síðan höfum við verið í viðræðum við bankann. Niðurstaðan er að þeir taka þetta yfir."

Eignarhaldsfélagið Hafrahlíð átti fjögur félög; Heklu, fasteignafélag Heklu, Öskju og Árfell-Kia. Kaupþing tekur yfir tvö fyrrnefndu félögin.