Í desember á þessu ári verður Ríkisútvarpið 75 ára en ekki er hægt að segja að afmælisbarnið beri aldurinn vel. Raunar hefur stofnunin verið rúin inn að skinni með endalausum taprekstri. Búið er að éta upp eigið fé hennar og heildarskuldir eru gríðarlegar eða 4,7 milljarðar króna. Nýs útvarpsstjóra bíða því ærin verkefni en hann mun þó hafa verulega bundnar hendur vegna víðtæks valds útvarpsráðs yfir rekstrinum.

Botnlaust tap hefur verið ár eftir ár þrátt fyrir yfir þriggja milljarða króna tekjur. Þá er búið að klára allt eigið fé stofnunarinnar sem var 2.705 milljónir króna í lok árs 1994. Um síðustu áramót stóðu aðeins eftir um 10 milljónir króna. Það dugði fyrir 0,22% af skuldapakkanum eins og hann stóð þá.

Tvö frumvörp sem eru talin grundvöllur að því að hægt sé að breyta um stefnu í rekstri stofnunarinnar döguðu uppi í vor. Þau ganga þó að margra mati alls ekki nógu langt og veita stofnuninni jafnvel að sumu leyti enn aukið forskot í samkeppni við einkarekna miðla. Ekki er t.d. gert ráð fyrir að hætt verði að selja auglýsingar í miðla RÚV en þar er um að ræða tæplaga 1000 milljóna króna bita eða um einn þriðja af öllu rekstrarfé RÚV.

Ítarleg fréttaskýring um Ríkisútvarpið er í Viðskiptablaðinu í dag.