*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 6. desember 2019 15:19

Eigið fé sjávarútvegs eykst hægar

SFS segja ekki rétt að horfa á 341 milljarða króna hækkun eigin fjár frá árinu 2008 sem rök fyrir hækkun veiðigjalds.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja það talnaleikfimi að benda á 92 földun, eða 341 milljarða króna hækkun eiginfjár sjávarútvegsfyrirtækja frá árinu 2008 sem rök fyrir hækkun veiðigjalds.

Það ár hafi eigið fé atvinnugreinarinnar, á föstu verðlagi ársins í fyrra, verið neikvætt um tæplega 87 milljarða króna. Nærtækara væri að miða við árið 2002, en síðan þá hefur eigið fé fyrirtækja í greininni þrefaldast, það er úr 128 milljörðum króna í 341 milljarð króna árið 2018.

Segir í samantekt á vef félagsins að þarna blasi við önnur mynd og svo skipti samhengið máli, og nærtækt að spyrja hvað hafi verið að gerast á öðrum sviðum viðskiptalífsins á sama tíma.

Þá segir:

„Ef viðskiptahagkerfið er skoðað í heild sinni, án sjávarútvegs,[1] sést að hlutfallsaukningin var meiri þar en í sjávarútvegi, eða tæplega sexföld – úr 502 milljörðum króna árið 2002 í um 2.950 milljarða króna árið 2018.“

Jafnframt benda samtökin á að teknu tilliti til fjölgunar fyrirtækja í öðrum greinum en fækkun í sjávarútvegi, þá þrefaldist eigið fé á hvert fyrirtæki í greininni meðan það fjórfaldist í viðskiptahagkerfinu á sama tíma.

Segja samtökun að þegar betur sé að gáð sé staða og þróun á eigin fé sjávarútvegsfyrirtkja á svipuðu róli og hjá öðrum fyrirtækjum og styðji því á engan hátt kröfuna um hærra veiðigjald.

Stikkorð: sjávarútvegur SFS eigið fé