Eiginfjárframlag Kaupþings í Somerfield tvöfaldaðist frá því að Kaupþing keypti keðjuna í félagi við aðra fjárfesta árið 2005 þar til Co-operative Group keypti Somerfield í gær. Frá þessu er greint í umfjöllun Financial Times um sölu Kaupþings og Tchenguiz á Somerfield verslunarkeðjunni til Co-operative Group fyrir 1,57 milljarða punda.

Kaupþing keypti í félagi með öðrum keðjuna árið 2005 fyrir 1,2 milljarða punda auk þess að taka yfir skuldir Somerfield.

Í frétt Financial Times kemur fram að frá því 2005 og fram að sölunni í gær hafi eiginfjárframlag Kaupþings og annarra fyrri eigenda Somerfield tvöfaldast og skuldir somerfield minnkað úr 1,4 milljarði punda niður í 800 milljónir punda.

Co-operative Group varð sér úti um 2,2 milljarða punda frá samtals fimm bönkum til að endurfjármagna skuldir sínar og fjármagna kaupin á Somerfield.