Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur, tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens og hreppsnefnd Kjósarhrepps hafa gagnrýnt fyrirhugaða verksmiðju Silicor Materials á Grundartanga út frá umhverfissjónarmiðum.

„Ef það er iðnaðarstarfsemi einhvers staðar í heiminum, sem er umhverfisvænni en fyrirhuguð verksmiðja okkar, þá myndi ég vilja vita það,“ segir Neil Z. Auerbach, stjórnarmaður Silicor Materials og forstjóri Hudson Clean Energy Partners sem er aðaleigandi fyrirtækisins.

„Það er eiginlega ótrúlegt hvað þessi verksmiðja mengar lítið. Ef ég væri ekki í stjórn fyrirtækisins og þekkti verkefnið ekki jafn vel og raun ber vitni þá væri ég efins um að þetta gæti verið rétt. Hluti af þessari gagnrýni byggir á miklum misskilningi. Hún byggir á því að við séum að nota Siemens-tæknina, sem er ekki reyndin,“ segir Auerbach.

Hann segir verksmiðjuna losa minna af gróðurhúsalofttegundum en meðal kúabú og ekkert flúor.

„Sú nýja tækni, sem við notum við okkar framleiðslu, er lykillinn að þessu öllu. Ég fullyrði að engin verksmiðja á Íslandi mun menga minna. Frá umhverfissjónarmiði má heldur ekki gleyma því að sólarkísill er notaður í sólarsellur. Sólarsellur eru vistvænt leið til að beisla orku sólar. Það má segja að við séum að flytja út þá endurnýjanlegu orku sem framleidd er á Íslandi. Hvert kílóvatt af orku sem fer inn í verksmiðjuna verður að 38 þegar búið er nota sólarkísilinn í sólarsellur. Frá umhverfissjónarmiði fáum við A+ í einkunn.“

Þess má geta að í apríl á síðasta ári komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að hreinsun kísilmálms til framleiðslu á sólarkísli á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit væri „ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum“.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .