Bein fjármunaeign erlendra aðila á Íslandi jókst um 276 milljarða króna á síðasta ári, var 1.354 milljarðar í lok ársins en 1.078 milljarðar í árslok 2009. Bein fjármunaeign Íslendinga erlendis jókst sömuleiðis en þó ekki eins mikið. Í lok síðasta árs var hún 1.209 milljarðar króna en 1.158 í árslok 2009.

Þetta kemur fram á vef Seðlabankans en þar segir að aukning fjármunaeignar erlendra aðila hérlendis helgist að stórum hluta af endurskipulagningu skulda. „Það sem áður tilheyrði lánaskuld í beinni fjárfestingu innlendra aðila erlendis fluttist yfir í fjárfestingu erlendra aðila innanlands,“ segir á vef Seðlabankans.