Eignarhaldsfélaginu Andvöku hefur verið slitið og allt eigið fé þess greitt eigendum félagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá skilanefnd Andvöku.

Þar kemur fram að tæplega 8.300 fyrrum tryggingartakar hjá Líftryggingafélaginu Andvöku fái næstu daga greidda eignarhluti sína í Eignarhaldsfélaginu Andvöku í hlutfalli við iðgjaldagreiðslur sínar á árunum 1989 og 1990, alls um 187 milljónir króna. Fyrstu ávísanirnar hafi verið póstlagðar í dag, 5. janúar 2015.

Lægsta greiðsla er fáeinar krónur en sú hæsta hátt í 3,4 milljónir króna. Langflestir fá greitt á bilinu 5.000 til 50.000 krónur.

Skilanefnd Eignarhaldsfélagsins Andvöku var skipuð í framhaldi af því að samþykkt var að slíta félaginu. Hún greiðir nú öllum eigendum félagsins út eignarhluti sína. Eigendur Andvöku eru Arion banki, tryggingatakar 1989 og 1990 og Andvökusjóðurinn.

Alls eru tæplega 460 milljónir króna til skipta eftir að ríkið fékk greiddan fjármagnstekjuskatt upp á tæplega 115 milljónir króna. Þar af fá fyrrum tryggingartakar ríflega 40% eða um 187 milljónir króna.

Skilanefnd félagsins hefur stofnað vefsíðuna ehfandvaka.is og birtir þar upplýsingar um slit Andvöku, aðdraganda þeirra og forsendur auk þess að taka við fyrirspurnum. Hægt er að koma fyrirspurnum á framfæri við skilanefndina til 5. apríl 2015, en eftir það lýkur nefndin störfum og mun óska eftir því að félagið verði afskráð.