Gengið hefur verið frá samkomulagi um að Dominos í Englandi (Domino´s Pizza Group), sem í dag á 49% hlut í hinu íslenska Dominos, muni í framtíðinni eignast hluti íslensku keðjunnar í Skandinavíu. Þar að auki mun breska félagið eignast  2% auka hlut í íslenska félaginu hér á landi og verður þar af leiðandi ráðandi 51% hluthafi. Eigandi Dominos á Íslandi, Birgir Bieltvedt, segir breska félagið hafi boðið mjög gott verð í bréfin og með viðskiptunum hafi íslensku hluthafarnir margfaldað fjárfestingu sína í Skandinavíu frá árinu 2014.

Dominos í Bretalandi tilkynnir í dag einnig um kaup félagsins, ásamt íslenska Dominos, á fyrirtækinu Dolly Dimple´s sem er leiðandi pizzaframleiðandi í Noregi með 42 verslanir víðsvegar um landið og er heildarvirði félagsins (e. enterprise value) metið á 4 milljónir punda eða sem nemur rúmum 500 milljónum króna á núverandi gengi. Er markmiðið með kaupunum að liðka fyrir innkomu Dominos á norskan markað.

Tækifæri fyrir íslenska starfsmenn

Yfirtaka á eignarhlut Íslenska Dominos í Skandinavíu mun eiga sér stað með röð viðskipta sem háð eru samþykki Seðlabankans á Íslandi. Birgir segist þó ekki eiga von á öðru en að Seðlabankinn muni samþykkja viðskiptin enda fylgi þeim töluvert flæði fjármagns inn í landið.

„Íslenska keðjan á 51% hlut í norska og sænska félaginu en þar sem að Ísland hefði átt mjög erfitt með að fylgja þeirri fjárfestingu eftir, m.a. út af fjármagnshöftunum, buði bretarnir í bréf íslenska félagsins í Skandinavíu. Þetta var mjög gott tilboð og íslenska félagið mun með þessu margfalda fjárfestingu sína í Skandinavíu frá árinu 2014. Að sama skapi fóru Bretarnir fram á það að eignast 2% hlut á Íslandi og verða þar með ráðandi hluthafar með 51%. Þetta stóð alltaf til hvort sem er en er þó að gerast nokkuð hraðar en við höfðum ætlað en að sama skapi er þetta mjög jákvæð þróun sem mun skapa gríðarleg tækifæri fyrir hópinn innan keðju Dominos í Englandi sem á einnig stóran hluta Dominios í Þýskalands, Sviss og á fleiri mörkuðum. Þetta mun aðeins fela í sér frekari tækifæri fyrir íslenska starfsmenn og stjórnendur,“ segir Birgir