Eignaverðsvísitala KB banka, sem vegur saman fasteigna-, hlutabréfa- og skuldabréfaverð, lækkaði um 1,4% að raunvirði í október, en hækkaði um 21% á síðastliðnum 12 mánuðum. Verð hlutabréfa hækkaði um rúmt 1%, fasteigna um 0,8% og verð skuldabréfa lækkaði um 0,85%. Rekja má lækkun vísitölunnar til þess að verðbólguskot átti sér stað í september þegar vísitala neysluverðs hækkaði um 1,5% sem gerði það að verkum að vísitalan lækkaði milli mánaða að raunvirði. Eignaverðsvísitalan lækkaði síðast að raunvirði milli mánaða í október í fyrra þegar hlutabréfaverð lækkaði um 11,5%.

Ef rýnt er í þróun vísitölunnar á næstunni þá má gera ráð fyrir því að draga muni úr hækkunum þar sem fasteignamarkaðurinn virðist vera að feta sig í átt að ákveðnu jafnvægi, en t.d. gerir Greiningardeild KB banka ráð fyrir 6% hækkun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu á næstu 12 mánuðum. Samsetning vísitölunnar á að endurspegla dæmigerða eignasamsetningu landsmanna og vegur fasteignaverð 50% í vísitölunni, hlutabréfaverð 20% og skuldabréfaverð 30%