Á einu og hálfu ári frá fyrri hluta árs 2004 til seinni hluta árs 2005 hafa heildareignir íslensku viðskiptabankanna miðað við samstæðuuppgjör þrefaldast, sem skýrist fyrst og fremst af aukningu á starfsemi þeirra utan Íslands. Þetta kemur fram í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins.

Þar er rakið að Kaupþing banki hf. hóf útrás bankanna árið 1998 með stofnun Kaupthing Luxembourg S.A. Þá keypti Íslandsbanki hf. Raphael & Sons Plc. 1999 og Landsbanki Íslands hf. Heritable Bank árið 2000 í Bretlandi. Þessi fyrstu skref bankanna voru vísir að þeirri útrás íslensks fjármálamarkaðar sem orðið hefur á síðastliðnum árum. Búnaðarbanki Íslands hf. stofnaði síðan Bunadarbankinn International S.A. Luxembourg 2000 og árið 2002 varð til Kaupthing Sverige A.B. Árið 2003 keypti síðan Landsbanki Íslands hf. Bunadarbankinn International S.A. af Kaupþingi banka hf. og nafnbreytir í Landsbankinn Luxembourg S.A.

Næstu stóru skref í útrás bankanna verða á árinu 2004 þegar Kaupþing banki hf. kaupir FIH bankann í Danmörku og setur á stofn Kaupthing bank Oyj í Finnlandi og Íslandsbanki hf. kaupir Kreditbanken í Noregi. Viðburðaríkt ár í erlendri útrás bankanna er svo árið 2005 þegar Íslandsbanki hf. festi kaup á BN banken í Noregi, Landsbanki Íslands hf. keypti Teather & Greenwood í Bretlandi og Kepler Securities í Frakklandi og Kaupþing banki hf. kaupir Singer & Friedlander í Bretlandi. Þessi upptalning er þó ekki tæmandi listi yfir þá starfsemi sem viðskiptabankarnir stunda erlendis í dótturfélögum, útibúum eða skrifstofum.