Eignir þrotabús Landsbankans nema 1.543 milljörðum króna. Þetta er 170 milljörðum meira en á sama tíma í fyrra. Kröfur í þrotabúið, sem er að mestu Icesave-skuldin svokallaða nema, 1.318 milljörðum króna. Þessu samkvæmt standa 225 milljarðar króna út af sem mun renna til almennra kröfuhafa.

Fjallað er um málið í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um Viðskipti. Þar er fjallað um nýjasta uppgjör þrotabúsins sem birt var fyrir helgi og rifjað upp að nú sé búið að greiða út 661 milljarð króna til forgangskröfuhafa í þremur greiðslum. Sú síðasta var greidd í október í fyrra. Eftir á að greiða forgangskröfuhöfum, sem meðal annars eru tryggingasjóðir innstæðueigenda í Bretlandi og Hollandi, 657 milljarða króna, eða rétt tæpan helming.

Eignasala skilaði miklu

Það sem helst jók eignir þrotabús Landsbankans voru sala á bresku matvörukeðjunni Iceland Foods, hækkun á kröfu á þrotabú Glitnis, sala á stórum hlut búsins í Eimskipi og sala á móðurfélaginu Aurum Holdings sem heldur utan um rekstur skartgripaverslana í Bretlandi.

Rekstrarkostnaður þrotabúsins nam 5,5 milljörðum króna í fyrra og var það 8% lækkun á milli ára. Þar af af voru greiddir 1,8 milljarðar króna í laun og fríðindi starfsmanna, sem var 14 prósentum lægra en árið áður, að því er segir í Markaðnum.