Skuldir heimilanna stóðu í 879 mö.kr. um síðustu áramót sem er tæplega 3 m.kr. á hvern Íslending. Skuldir þessar höfðu þá aukist um 107 ma.kr. á einu ári sem er umtalsvert. Á hinn bóginn eru eignir heimilanna mun meiri og jukust þær hraðar á síðasta ári en skuldirnar. Þannig stóð eign íbúðarhúsnæðis landsmanna í 1.531 mö.kr. um síðustu áramót samkvæmt fasteignamati og hrein eign lífeyrissjóðanna í 973 mö.kr. Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka.

Verðmæti íbúðarhúsnæðisins jókst um tæplega 220 ma.kr. á síðasta ári og hrein eign lífeyrissjóðanna um 150 ma.kr. Af þessum sökum lækkaði hlutfall skulda af eigin fé heimilanna á síðasta ári og fjárhagsleg staða heimilanna batnaði þrátt fyrir að skuldirnar hafi vaxið hratt.

Mikið hefur verið rætt um að yfirdráttarlán heimilanna hafi aukist að undanförnu. Lán þessi standa nú í 60,5 mö.kr. og hafa vaxið um tæplega 7 ma.kr. frá áramótum. Ekki skal gert lítið úr þessari aukningu en hafa verður í huga að á sama tíma hafa eignir bundnar í íbúðarhúsnæði aukist um ríflega 210 ma.kr. og hrein eign lífeyrissjóðanna um eitthvað yfir 50 ma.kr. Þótt bætt sé við skuldahliðina þeim vexti sem hefur verið í íbúðarlánum fæst engu að síður sú niðurstaða að hlutfall skulda af eigin fé heimilanna hefur haldið áfram að lækka í ár.

Skuldahlutföll hafa ekki aðeins batnað hjá heimilum að undanförnu heldur hefur atvinnuleysi einnig minnkað, kaupmáttur vaxið og langtímavextir lækkað. Fjárhagsleg staða heimila hefur því batnað. Kemur það m.a. fram í því að gjaldþrotaúrskurðum hefur fækkað til muna að undanförnu. Líkur eru á því að þessi þróun haldi áfram á næstunni. Mikið framboð er af lausum störfum, laun hækka hratt og verðbólgan er nálægt því að vera skapleg. Einnig er líklegt að eignaverð haldi áfram að hækka á næstunni þó svo að það verði sennilegast ekki með jafn miklum hraða og að undanförnu. Fjárhagsleg staða heimilanna er sögulega mjög góð um þessar mundir og er líklegt að hún haldi áfram að batna að minnsta kosti í nánustu framtíð.