Eignarsafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) bókfærði lán til VBS fjárfestingarbanka og Aska Capital eins og þau myndu endurgreiðast að fullu í ársreikningi sínum fyrir árið 2009. Samtals átti ESÍ kröfu upp á að minnsta kosti 36 milljarða króna á fyrirtækin tvö. Það er rúmlega fjórðungur af virði þeirra krafna sem ESÍ keypti af ríkinu í fyrra. Þetta sést á niðurbroti á kröfum sem ESÍ keypti af ríkissjóði í febrúar 2010 sem birtist í endurskoðum ríkisreikningi ársins 2009.

Samtals yfirtók ESÍ eignir að andvirði 134 milljarðar króna frá ríkinu. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna endurskoðaðs ríkisreiknings segir að ljóst sé að „mikil óvissa er um raunvirði þeirra eigna sem keyptar voru þar sem m.a. er um að ræða kröfur á fjármálastofnanir í slitameðferð“.

Viðskiptablaðið sendi Seðlabanka Íslands fyrirspurn um hvernig umræddar eignir væru bókfærðar í ársreikningi ESÍ í desember síðastliðnum. Seðlabankinn vildi þá ekki gefa upp einstaka liði á efnahagsreikningi ESÍ. Heildareignir ESÍ voru sagðar 491 milljarðs króna virði í árslok 2009. Það er um 42% af heildarefnahag Seðlabankans.

Vildu tryggja eiginfjárstöðu

Við fall bankanna í október 2008 varð Seðlabanki Íslands fyrir verulegu tjóni vegna veðlána til lánastofnana. Umfang þeirra var um 345 milljarðar króna og algjör óvissa ríkti á þeim tímapunkti um hvað, ef eitthvað, myndi innheimtast af þeim. Seðlabankinn afskrifaði því 75 milljarða króna af upphæðinni og ríkissjóður yfirtók afganginn, um 270 milljarða króna, með sérstöku samkomulagi sem gert var 12. janúar 2009. Í endurskoðuðum ríkisreikningi segir að „tilgangur samkomulagsins var að tryggja eiginfjárstöðu Seðlabankans“.

Fengu lán til að lifa áfram

Ríkissjóður greiddi fyrir yfirteknu kröfurnar með skuldabréfi upp á 270 milljarða króna sem bar 2,5% vexti. Til viðbótar yfirtók ríkissjóður líka svokölluð tryggingabréf vegna samninga við aðalmiðlara ríkisbréfa að fjárhæð 97,9 milljarða króna. Í endurskoðuðum ríkisreikningi segir að „aðalmiðlarar áttu kost á að fá lánuð ríkisverðbréf til skilgreinds tíma gegn því að leggja fram tryggingabréf. Markmiðið var að auðvelda aðalmiðlurum að uppfylla kröfur um viðskiptavakt á verðbréfamarkaði“.

VBS og Saga Fjárfestingarbanki voru skilgreindir sem aðalmiðlarar. Bankarnir tveir greiddu skuldir sínar við Seðlabankann með útgáfu þriggja skuldabréfa upp á samtals 46 milljarða króna. Þeir bókfærðu síðan hluta lánsins sem eign sem nýttist til að eiginfjárhlutfall þeirra uppfyllti skilyrði Fjármálaeftirlitsins (FME).

ESÍ tekur kröfurnar aftur

Í febrúar 2010 náðist samkomulag milli ríkissjóðs og Seðlabanka Íslands um að ESÍ myndi yfirtaka allar kröfur vegna verðbréfalánaviðskiptanna. Þær voru því komnar aftur í fang Seðlabankans um ári eftir að kröfurnar voru fluttar til ríkisins. Miða skyldi yfirtökuna við árslok 2009 og virði krafnanna var bókfært sem 134 milljarðar króna. 270 milljarða skuldabréf ríkissjóðs á ESÍ lækkaði í samræmi við þá greiðslu.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.