Í ljósi þess að Fjármálaeftirlitið hefur tekið yfir rekstur Kaupþings hefur bankinn sent frá sér tilkynningu þar sem tekið er fram að inneign sjóðfélaga í lífeyrisafurðum Kaupþings er aðskilin eignum bankans og ekki er hægt að ráðstafa henni upp í skuldbindingar bankans.

„Eignir sjóðanna eru eignir sjóðfélaga en ekki bankans,“ segir í tilkynningu frá Kaupþing í dag.

Þá kemur fram í tilkynningunni að Frjálsi lífeyrissjóðurinn telur að samkvæmt bráðabirgðaútreikningum verður að teljast ólíklegt miðað við núverandi stöðu að tryggingadeild sjóðsins þurfi að grípa til skerðingar á réttindum og lífeyri sjóðfélaga á næsta ári vegna lækkunar á verðbréfamörkuðum.

„Eignastýring Kaupþings hefur á þessu ári kerfisbundið minnkað áhættu í fjárfestingarleiðum lífeyrisafurða Kaupþings,“ segir í tilkynningunni.

Þannig hafi áhættumeiri verðbréf hafa verið seld og í staðinn hafa verið keypt verðtryggð ríkisskuldabréf.

„Aðgerðirnar leiða til þess að lækkun á ávöxtun fjárfestingarleiðanna, vegna væntanlegs gengisfalls verðbréfa Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, verður minni en ella,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Sjóðfélagar hvattir til að greiða áfram iðgjöld

Þá er sagt að sjóðsfélagar þurfi ekki að óttast að iðgjöld, sem hafa verið greidd frá og með 6. október sl. og iðgjöld sem berast sjóðnum framvegis, tapist eða lækki í verði vegna væntanlegs gengisfalls verðbréfa Glitnis, Landsbankans og Kaupþings.

Iðgjöld sem berast fara nú tímabundið inn á innlánsreikninga, sem ríkið hefur ábyrgst.

Ýtarlegri umfjöllun um lífeyrisafurðir í umsjón Kaupþings má finna á http://www.kaupthing.is/?pageid=853&newsid=8674