Eik fasteignafélag hf. hefur lokið skuldabréfaútboði til endurfjármögnunar á veðskuldum fyrir alls 11,6 milljarða króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eik en það var fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka sem hafði umsjón með útboðinu. Meðal fjárfesta voru lífeyrissjóðir, tryggingafélög, verðbréfasjóðir og einstaklingar, auk Íslandsbanka.

Þá kemur fram að með endurfjármögnun félagsins á skuldabréfamarkaði lækkar vaxtakostnaður félagsins umtalsvert og í kjölfarið skapast tækifæri til frekari vaxtar.

Skuldabréfin eru verðtryggð jafngreiðslubréf til 30 ára og bera fasta 4.3% árlega vexti. Til tryggingar greiðslu skuldabréfanna er valið safn fasteigna í eigu félagsins. Með útgáfunni eru jafnframt lagðar kvaðir á félagið varðandi fjárhagsleg skilyrði, kaup og sölu eigna, frekari skuldsetningu og fleira.