Helstu markmiðin í rekstri fasteignafélagsins Eikar er að stækka eignasafn, lækka hlutfall stjórnunarkostnaðar, auka áhættudreifingu og skrá félagið í kauphöll. Þetta kemur fram í glærukynningu sem útbúin var fyrir hluthafa Eikar vegna kaupa á fasteignafélaginu Landfestum og ákveðnum eignum SMI.

Með kaupunum verður Eik næststærsta fasteignafélag landsins með um 271 þúsund leigufermetra og virði eignasafns um 60 milljarðar króna. Í glærukynningunni kemur fram að tækifæri muni skapast til hagræðingar, lækkunar á stjórnunarkostnaði og mjög góðrar dreifingar leigutekna. Hagstæð fjármögnun verður tryggð og félagið í ákjósanlegri stærð fyrir skráningu í kauphöll fyrir lok árs 2014.

AF þeim 271 þúsund fermetrum sem Eik hefur til umráða eftir sameiningu er sá hlutur sem tilheyrði Eik fyrir sameiningu stærstur eða 113 þúsund fermetrar. Landfestar er 98 þúsund fermetrar og SMI 60 þúsund fermetrar. Húsasmiðjan er stærsti leigutakinn en Landsbankinn er einnig með miklar eignir á leigu.